fra Sigurður Ingjaldsson sin biografi.
Þegar ég var búinn að læra að ganga, var mér komið fyrir hjá hjónum, sem hétu Hannes og Snjólaug og bjuggu í Beingarði í Hegranesi. Landslagi er svo háttað í Hegranesi, að þar eru einlægar klappir og klettaborgir og mýrarsund á milli, og var mál manna, að það væri huldufólk í þessum borgum.
Það var ein klettaborg í túninu í Beingarði. Hún var svo einkennileg, að það var eins og húsdyr inn í klettinn á einum stað, þar sem að bænum sneri.
Það þótti skrýtið, að þegar ég fór að kynnast og hlaupa til og frá, þá fór ég að staðnæmast hjá klettadyrunum og fór ekki þaðan, nema ég væri sóttur, og þá sagði ég: "Því má ég ekki vera hérna hjá börnunum, sem eru svo góð við mig og eiga svo mikið af fallegum gullum, en ég á svo lítil og ljót gull." Enginn sá neitt þarna nema fóstra mín, því hún var skyggn. Hún sá pilt og stúlku hjá mér. Hún sótti mig oft þangað, en ég fór aftur, þegar ég gat. Ég man vel eftir þessu. Gullin eða leikföngin þeirra voru fáséð, en ég get ekki lýst þeim. Það var piltur og stúlka, þetta, og þau voru ósköp góð við mig, en töluðu heldur lítið.
Einu sinni sögðu þau við mig: "Viltu ekki koma inn og sjá bæinn okkar, því mamma er ekki heima?" Ég sagðist vilja það. Þá luku þau upp hurð þarna og fóru inn. Mér þótti þar fallegt. Var baðstofa öll þiljuð og allt svo hreint og hvítt, bæði þil og gólf. Það voru tvö rúm, að mig minnir, í öðrum endanum, uppbúin, og borð og skápur í hinum með leirtaui í, allt mikið fallegra en ég hafði vanizt, því það var ekkert þiljað hjá mér í baðstofunni og moldargólf. Ekkert gerðu þau mér gott. Svo fóru þau út og létu aftur hurðina.
Ég sagði fóstru minni frá þessu, en hún sagði, að ég skyldi ekkert tala um það, og gerði ég það ekki. Svona leið tíminn í Beingarði. Ég var í klettadyrunum, þegar ég gat, og alltaf hélt ég áfram að fara þangað, hvað sem hver sagði.
Comments